20 ár frá fyrsta og eina bikartitli karlaliðs ÍBV í handbolta
Leikur sem markaði djúp spor í handboltasöguna
- segir Sigurður Gunnarsson, þjálfari ÍBV 1991. - Sigbjörn Óskarsson segist hafa gegnt lykilhlutverki í leiknum þótt hann spilaði aðeins 12 mínútur
 
Dagurinn er 2. mars 1991. Ég var staddur í Reykjavík, 15 ára gamall og hafði miðað ferðina við að geta farið á stórleik. Það var alla vega stórleikur í mínum huga og í huga fjölmargra annarra Eyjamanna enda átti handboltalið ÍBV í fyrsta sinn möguleika á að vinna titil. Karlalið ÍBV mætti þennan dag hinu ofursterka liði Víkinga þar sem hvert rými var fyllt með stórstjörnum og lands­liðsmönnum. Við ofurefli var að etja en þarna upplifði ég, og þúsundir annarra, sannkallað Ösku­buskuævintýri. 
 
Litla liðið fór hreinlega á kostum, stuðningsmenn ÍBV bjuggu til umgjörð sem síðan hefur verið stöðluð á bikarúrslitaleikjum. Gleðin innan sem utan vallar varð til þess að risinn var felldur og fögnuðurinn í leikslok var innilegur. Minningarnar voru slíkar að í mörg ár á eftir var upptaka af leiknum til á heimilinu og reglulega skellt í tækið.
 
 
Áttu ekki að eiga möguleika
Þeir sem muna eftir leiknum, muna það væntanlega jafn vel að ekki blés byrlega fyrstu mínúturnar. Og   margir héldu að ævintýrið væri úti strax í upphafi þegar ÍBV var einhverjum sex mörkum undir og Sigbjörn Óskarsson fékk að líta rauða spjaldið. Sigbjörn var allt annað en sáttur og þurfti að fylgja honum til búningsherbergja. En það sem á eftir fylgdi var ekkert annað en ævintýri. Guðfinnur Kristmanns­son, þá ungur og óreyndur handboltamaður kom inn í lið ÍBV og fór hreinlega á kostum. Baksendingar Sigurðar Gunnarssonar, spilandi þjálfara ÍBV, á línumanninn knáa, Jóhann Pétursson, voru eitthvað sem íslenskir handboltaáhorfendur höfðu aldrei séð áður og markvarsla Sigmars Þrastar Óskarssonar var lykillinn að sigrinum. Þeim var illa brugðið stórlöxunum í Víkingi, menn eins og Guðmundur Þórður Guðmundsson, núverandi landsliðs­þjálfari, Bjarki Sigurðsson, Birgir Sigurðsson, Alexei Trúfan, Hrafn Margeirsson að ógleymdum Eyja­manninum Björgvini Þór Rúnars­syni, urðu að lúta í lægra haldi fyrir gleðipinnunum frá Vestmanna­eyjum. Fréttir heyrðu hljóðið í tveimur af lykilmönnum ÍBV á   þessum tíma til að rifja aðeins upp þessa stemmningu.
 
 
Þessi leikur stendur upp úr
Sigurður Gunnarsson var þjálfari ÍBV á þessum tíma en þessi reyndi landsliðsmaður reyndist ÍBV liðinu gulls ígildi, bæði innan vallar sem utan. Hann hafði fyrir þennan leik spilað sex sinnum til úrslita í bikarkeppninni og aldrei tapað. Flestir voru á því að sjöundi leikurinn yrði sá erfiðasti. „Það er einfaldlega allt eftirminnilegt í kringum þennan leik,“ sagði Sig­urður í viðtali við undirritaðan. „Hópurinn var auðvitað sérlega skemmtilegur, bæði leikmenn og svo þeir sem skipuðu stjórn handboltans á þessum tíma. Ég man líka að undirbúningurinn fyrir þennan leik var mjög skemmtilegur. Við fórum eitthvað fyrr í bæinn og svo var okkur boðið í mat í Hamp­iðjunni, sem var okkar styrktaraðili á þessum tíma. Leikurinn sjálfur er auðvitað eitthvað sem maður gleymir aldrei og á þessum tíma hafði önnur eins stemmning ekki sést á handboltaleik á Íslandi. Stalla Hú steig sín fyrstu skref á þessum leik og ætli þeir hafi ekki verið bókaðir á leiki næstu ár á eftir. Meira að segja Davíð Oddsson vék að því hvað stuðningurinn við ÍBV liðið hefði verið góður.“
En þið áttuð ekki að eiga möguleika gegn Víkingunum?
„Við vorum taldir vera   litla liðið og réttilega svo því Víkingar voru með feykilega gott lið, vel mannað og vel þjálfað. Þeir höfðu líka hefðina fyrir svona leikjum en við ekki   þannig að það benti allt til þess að þeir myndu vinna þennan leik. En svo gerðist bara eitthvað sem erfitt er að benda á. Það kviknaði í okkur þegar Sigbjörn fékk rauða spjaldið. Reyndar held ég að hann hafi aldrei jafnað sig í tánni á eftir því hann sparkaði svo fast í hurðina þegar hann fór út úr salnum. En kannski má segja að þegar Sibbi fór út af, þá fóru aðrir leikmenn að fá boltann og kannski var það lykillinn að sigrinum,“ sagði Sigurður og hló.
            „En öllu gríni slepptu þá var það mikið áfall að missa Sibba út af enda góður leikmaður en þetta áfall   þjapp­aði okkur saman. Stemmn­ingin var okkar megin og við hreinlega gátum bara ekki tapað þessum leik.“
Hvað með þessar sendingar aftur fyrir bak. Var þetta eitthvað sem þið Jóhann Pétursson æfðuð sérstak­-lega fyrir leikinn?
„Nei alls ekki. Þetta var bara eins og svo margt annað í þessum leik, það gekk bara allt upp. Mínir gömlu félagar í Víkingi voru farnir að sækja svolítið á mig þannig að það opnaðist fyrir hinn ágæta línumann Jóhann Pétursson. Við vorum bara í ham og svona hlutir ganga upp hjá liði sem er í svona ham. Auðvitað var kannski farið út á ystu nöf að senda svona sendingar á Jóa en hann hafði það að grípa boltann og skora,“ sagði Sigurður í léttum tóni.
            Heimferðin var ekki að skapi Sigurðar enda alþekkt hversu illa honum var við að fljúga. „Flugið tók örugglega helmingi lengri tíma en vanalega. Menn voru aðeins búnir að fá sér í aðra tána og sumir neyttu óhefðbundinna bragða til að losa blöðruna í fluginu. En eftir þetta skemmtilega flug beið okkar hálfur bærinn á flugvellinum og móttökurnar voru hreint frábærar. Ég held að þessi leikur hafi markað dýpri spor í handboltasöguna en margir halda. Þarna myndaðist stemmning sem önnur félög hafa reynt að herma eftir síðan. Þetta var algjört ævintýri. Ég er búinn að spila um 200 leiki, unnið sjö bikar­meistaratitla en þessi leikur stendur algjörlega upp úr. Ég er virkilega stoltur af því að hafa fengið að hafa átt þátt í að ÍBV ynni sinn fyrsta titil,“ sagði Sigurður.
 
 
Gegndi lykilhlutverki
Sigbjörn Óskarsson gegndi mikilvægu hlutverki í liði ÍBV þennan veturinn og ekki síður í þessum leik. Reyndar hefði hann sjálfsagt óskað sjálfur að vera markahæstur og spila vel en hans aðkoma að leiknum var styttri en upphaflega var reiknað með. „Ég vil meina að ég hafi gegnt lykilhlutverki í þessum leik,“ sagði Sibbi í samtali við Fréttir og undir-ritaður getur ekki annað en tekið undir það. Sibbi fékk nefnilega rautt spjald strax á 12. mínútu, spjald sem margir voru afar ósáttir með og ekki síst Sibbi sjálfur. En í kjölfar rauða spjaldsins umpólaðist leikurinn. „Ég fór út af á 12. mín­útu og staðan þá var 9:3 fyrir Víking. Guffi kom inn á í mína stöðu, ungur strákur, og hann fór algjörlega á kostum í leiknum. Strákarnir tví-efldust við mótlætið og unnu leikinn, 26:22. Ég fylgdist með seinni hálfleiknum úr heiðurs­stúkunni. Það var erfitt enda fannst mér ég gegna stærra hlutverki inni á vell­inum en uppi í heiðursstúku. En þrátt fyrir það má kannski segja að ég hafi reddað leiknum. Einhver varð að taka þetta á sig og ég gerði það bara,“ sagði Sibbi og glotti.
            Sibbi bætti því við að undir­búningurinn fyrir leik og mótttök­urnar eftir leik hafi verið ógleymanlegar. „Stalla Hú var þarna í fyrsta skipti á pöllunum og stuðningurinn sem við fengum í leiknum var frábær. Við fórum upp á land á fimmtudegi og gistum á góðu hóteli. Á þessum tíma var fínt að vera í handboltanum, flogið með Fokker fram og til baka en síðar fékk ég að kynnast hinni hliðinni sem þjálfari þegar samgöngur hjá okkur fóru í tómt rugl. Svo eftir leik þá flugum við aftur heim til Eyja og ég man það vel að við þurftum að bíða lengi eftir að komast af stað. Menn voru aðeins farnir að fá sér í aðra tána en það var leiðindaveður og nánast ófært. Við flugum með Twin Otter vél Íslandsflugs og ferðin tók örugg­-lega hátt í klukkutíma enda var 12 vindstiga mótvindur alla leið. Það reyndi aðeins á blöðruna en það reddaðist allt saman. Bæjarstjórnin bauð okkur út að borða og svo var ball í Hallarlundi,“ sagði Sigbjörn að lokum
 
 
Ber við minnisleysi
„No comment. Ég ber við minnisleysi,“ sagði Björgvin Þór Rúnars­son, sem var leikmaður Víkings fyrir 20 árum og þurfti að lúta í lægra haldi fyrir félögum sínum í ÍBV. Hann bætti því þó við að fyrst hann þurfti að tapa bikarúrslitaleik þá hefði hann ekki viljað tapa fyrir öðru liði en ÍBV.
 
- Júlíus G. Ingason