Lög Íþróttabandalags Vestmannaeyja
Samþykkt á ársþingi 17. maí 2001
- með síðari breytingum
 
1. kafli
Tilgangur og markmið
1. gr.
Íþróttabandalag Vestmannaeyja (skammstafað ÍBV) er héraðssamband íþróttafélaga í Vestmannaeyjum. Það var stofnað 6. maí 1945 samkvæmt lögum ÍSÍ og íþróttalögum nr. 25 frá 12. febrúar 1940.
 
2. gr.
Tilgangur ÍBV er:
a) Að vinna að eflingu, samræmingu og skipulagningu á íþróttastarfsemi allra áhugamanna í Vestmannaeyjum í samræmi við íþróttalögin og reglur ÍSÍ.
b) Að hafa foystu í sameiginlegum félagsmálum og efla samvinnu íþróttaiðkenda í Vestmannaeyjum, svo og vera sameiginlegur fulltrúi félaganna utan héraðs.
c) Að vinna að framkvæmdum sem miða að því að efla íþróttaiðkanir innan héraðsins, svo sem að byggingu og endurbótum á sameiginlegum íþróttamannvirkjum og að aðstoða einstök félög við slíkar framkvæmdir.
d) Að sjá um rekstur og viðhald sameiginlegra íþróttamannvirkja, ef ekki er öðruvísi kveðið á um þau.
e) Að vinna að sameiginlegum fjármálum með því að koma styrkbeiðnum á framfæri og útvega styrki svo og að úthluta sameiginlegu styrktarfé til íþróttamannvirkja og kennslustarfsemi, bæði verklegrar og bóklegrar.
f) Að útvega kennara og tæki til þjálfunar og fræðslu, sé þess óskað.
g) Að annast íþróttaleg sérmál og hagsmuni sérgreinar, ef sérráð fyrir þá íþróttagrein er ekki starfandi.
h) Að gangast fyrir stofnun félaga, sem ásamt þjálfara annast öll mál viðkomandi íþróttagreinar.
i) Að sjá um afgreiðslu ágreiningsmála sem kunna að koma upp innan héraðsins.
Bandalaginu er heimilt að fela viðkomandi félögum að sjá um þessi mál undir yfirumsjón bandalagsstjórnarinnar.
j) Að segja álit sitt á íþróttamálum, íþróttamannvirkjum, o.s.frv.
k) Að annast skýrslugerðir um íþróttmál á bandalagssvæðinu.
l) Að sjá um að unnið sé að bindindismálum og útrýmingu skaðnautna meðal bandalagsfélag.
m) Að hafa yfirumsjón með og þar með úrskurðarvald um niðurröðun á íþróttamótum í héraðinu.
n) Að hafa yfirumsjón með héraðsmótum og úrskurðarvald í málum sem valda ágreiningi milli þjálfara og sérráða.
o) Aða hafa forgöngu um að örva íþróttaiðkanir og keppni um íþróttamerki.
 
II. kafli
Réttindi og skyldur bandalagsfélaganna
3. gr.
Öll þau félög í Vestmannaeyjum sem hafa íþróttir á stefnuskrá sinni eiga rétt á að ganga í ÍBV, enda fullnægi þau þeim skilyrðum, sem á hverjum tíma eru gildandi um frjálsa íþróttastarfsemi.
 
4. gr.
Óski félag að ganga í ÍBV, sendir það stjórn ÍBV umsókn sína, ásamt lögum félagsins, skýrslur um stofndag þess og ár, stjórn þess og tölu félagsmanna.
 
5. gr.
Félögin skulu senda ársskýrslu til stjórnar bandalagsins fyrir lok mars ár hvert. Stjórn ÍBV sendir síðan heildarskýrslu til ÍSÍ.
 
 
6. gr.
Félag, sem ekki hefur sent ársskýrslu sína fyrir ársþing missir atkvæðisrétt sinn á næsta ársþingi ÍBV. Líði ár án þess að félagið geri skil á skýrslum skal ársþing taka ákvörðun um hvort félaginu skuli vikið úr ÍBV.
 
7. gr.
Víkja má félagi úr ÍBV um stundarsakir, ef það brýtur gildandi lög um íþróttamál, svo sem lög, reglur og ákvæði ÍBV, lög sambanda sem bandalagið er aðili að, svo og lög og reglur ÍSÍ.
  
8.gr.
Félag sem misst hefur réttindi vegna lögbrota eða vanskila getur ekki öðlast þau aftur fyrr en það hefur fullnægt settum refsiákvæðum eða ef um vanskil er að ræða, gert full skil.
 
9. gr.
Sérhvert félag innan ÍBV á rétt á að senda fulltrúa á ársþing bandalagsins. Skal tala fulltrúa félaganna miðuð við tölu félagsmanna þannig, að félög með 50 félagsmenn eða færri hljóti 1 fulltrúa, en síðan komi 1 fulltrúi fyrir hverja 50 félagsmenn þar fram yfir. Stjórnir félaga skulu útfylla kjörbréf fyrir fulltrúa sína á eyðublað, sem ÍBV leggur til og sjá um að það sé komið á ársþingið, þegar það er sett.
 
 
III. kafli
Ársþing ÍBV
10. gr.
Ársþing ÍBV er fulltrúaþing. Það skal haldið árlega á tímabilinu 15. apríl til 15. maí. Boða skal þingið, með sannanlegum hætti með minnst mánaðar fyrirvara. Eigi síðar en 2 vikum fyrir Ársþing skal senda aðilum dagskrá þingsins, upplýsingum um það hve marga fulltrúa aðildarfélögin eigi að senda, reikninga, tillögur sem borist hafa ásamt þeim tillögum sem stjórn bandalagsins hyggst leggja fyrir þingið. Framlagning gagna fyrir og á Ársþingi má vera á rafrænu formi, verði því við komið.  Tillögur sem óskast teknar fyrir á Ársþingi, skulu hafa borist stjórn bandalagsins 2 vikum fyrir þingsetningu.
 
11. gr.
Rétt til setu á ársþingi ÍBV eiga allir fulltrúar bandalagsfélaga samkvæmt 10. gr. Þá hafa rétt til þingsetu með málfrelsi og tillögurétti; Stjórn og varastjórn ÍBV, framkvæmdastjóri ÍSÍ, ásamt íþróttafulltrúa ríkisins, æskulýðs- og íþróttafulltrúi Vestmannaeyjabæjar og fulltrúi frá hverju landssambandi, sem ÍBV er aðili að.
 
12. gr.
Verkefni ársþingsins eru:
1. Þingsetning
2. Kosning þriggja manna kjörnefndar
3. Kosning þingforseta og ritara
4. Skýrsla stjórnar og umræður
5. Reikningar stjórnar, umræður og atkvæðagreiðsla
6. Skýrslur félaga, umræður og atkvæðagreiðsla
7. Ræddar lagabreytingar, ef fyrir liggja
8. Ræddar tillögur er fyrir liggja
 
Þinghlé
 
9. Álit nefnda, umræður og atkvæðagreiðsla
10. a) Kosinn formaður ÍBV
b) Kosin stjórn ÍBV
c) Kosnir tveir skoðunarmenn og einn til vara
d) Kosið í laganefnd og aðrar nefndir ef tillögur hafa borist, Valnefnd skal skipuð einum fulltrúa frá hverju aðildarfélagi Í.B.V. og formanni Íþróttabandalags Vestmannaeyja, sem skal vera formaður nefndarinnar og kalla valnefnd saman til fundar.
11. Ýmis mál
12. Þingslit
 
Öllum stærri málum, sem þingið fær til meðferðar, skal vísa til nefnda og starfa þær á þinginu. Allar kosningar skulu vera bundnar og skriflegar nema ef ekki eru fleiri tilnefndir heldur en kjósa á. Þá eru þeir sjálfkjörnir án atkvæðagreiðslu. Verði atkvæði jöfn ræður hlutkesti. Í sambandi við þingið má flytja erindi og hafa íþróttasýningar eftir því sem aðstæður leyfa.
 
13. gr.
Aukaþing skal halda, ef tilmæli koma um það samkvæmt fundarsamþykkt frá meirihluta bandalagsfélaganna. Einnig skal halda aukaþing ef stjórn landssambands sem ÍBV er aðili að mælist til þess. Boða skal til aukaþings ef meirihluti stjórnar ÍBV telur ástæðu til þess. Boða skal til aukaþings bréflega með tveggja vikna fyrirvara. Hafa bandalagsfélögin sömu fulltrúa og á næsta ársþingi á undan, sbr. 10. gr. síðustu málsgreinar.
Þetta er starf aukaþings:
1. Þingsetning
2. Kosnir þingforseti og þingritari sbr. 13.gr.3
3. Tekin til meðferðar mál þau sem gefið hafa tilefni til aukaþings og tilkynnt voru með þingboðinu.
4. Önnur mál, sem upp kynna að vera borin, ef þingið leyfir að taka þau fyrir sbr. 15. gr.
5. Þingslit
Á aukaþingi ÍBV má ekki gera breytingar á lögum eða reglum ÍBV né kjósa í stjórn þess nema bráðabirgðastjórn, ef meirihluti aðalstjórnar hefur sagt af sér eða hætt störfum, eða stjórnin að eigin dómi orðið óstarfhæf. Kjósa má fulltrúa að nýju í stað fulltrúa sem er látinn, veikur eða fluttur úr héraði.
 
14. gr.
Í málum þeim, sem tilkynnt hafa verið í þingboðinu, ræður einfaldur meirihluti úrslitum. Þó þarf 2/3 hluta atkvæða fundarmanna til að samþykkja lagabreytingar. Um þau mál sem ekki koma fram fyrr en á þinginu þarf 2/3 hluta atkvæða til þess að þau verði tekin á dagskrá og 4/5 hluta til þess að þau hljóti fulla afgreiðslu.
 
15. gr.
Atkvæðisrétt á þingum ÍBV hafa aðeins fulltrúar frá bandalagsfélögum ÍBV skv. 10. gr. og fer enginn með meira en eitt atkvæði.
Bandalagsfélag getur misst réttindi að meira eða minna leyti vegna dómsúrskurðar frá dómstóli ÍSÍ og tala þeirra fulltrúa sem það á rétt á þannig breyst milli þinga.
 
IV. kafli
Stjórn ÍBV og starfssvið
16. gr.
ÍBV stjórna fulltrúar sem til þess hafa verið kjörnir á ársþingi ÍBV til eins árs í senn. Formaður skal kjörinn sérstaklega sbr. 13. gr. 13a-13b.
Aðrir skulu kjörnir sbr. 13.gr. 13b, fjórir aðalmenn og fjórir til vara. Stjórnin skiptir með sér verkum.
 
17. gr.
Stjórn ÍBV skal sjá um allar framkvæmdir bandalagsins og vinna að málum þess. Stjórninni skal heimilt að skipa nefndir innan eða utan sinna vébanda, til þess að sjá um og framkvæma viss mál bandalagsins. Formaður skal kalla saman stjórnarfundi minnst einu sinni í mánuði. Að öðru leyti setur stjórnin sér sjálf starfsreglur. Stjórnarfundir eru lögmætir, ef meirihluti stjórnarinnar mætir og fundur hefur verið boðaður samkvæmt starfsreglu. (Atkvæði formanns ræður úrslitum ef atkvæði verða jöfn).
 
18. gr.
Í þeim íþróttagreinum, þar sem stjórnir eru ekki starfandi ferð stjórn ÍBV með hin sérfræðilegu málefni innan héraðs og getur skipað til þess sérstaka nefnd, ef hún telur það hagkvæmara. Stjórn ÍBV fer með stjórn í sérmálum þeirra íþróttagreina, sem það varðar. Sjá þó 2. gr.r. Reglur varðandi verðlaunagripi til keppni innan héraðs skulu háðar samþykkir stjórnar ÍBV.
 
19. gr.
Stjórnir félaga skulu veita viðtöku öllum skýrslum um íþróttamót, sem haldin eru í héraðinu og geyma þær í skjalasafni sínu. Sé mót haldið í sérgrein þar sem félag er ekki til, skal félag það er fyrir mótinu stendur, senda skýrslu um það beint til stjórnar ÍBV svo og heildarskýrslur um íþróttamót í sinni grein. Sömu skyldur hvíla á stjórn ÍBV, ef hún gengst fyrir mótum. Skýrslur um mót skal senda í síðasta lagi mánuði eftir að móti er lokið, en stjórnir senda ársskýrslur sínar fyrir lok október árlega. Allar skýrslur skal senda í tvíriti til stjórnar ÍBV, sem svo sendir annað eintakið til stjórnar ÍSÍ. Um fjárhagslega aðstoð bæjar-, ríkis- eða landssambanda svo og byggingu, viðhald og rekstur íþróttamannvirkja er félög háð yfirstjórn ÍBV.
 
20. gr.
Að loknu ársþingi gefur formaður ÍBV út skírteini handa stjórninni er gilda næsta starfstímabil og veita henni ókeypis aðgang að öllum íþróttamótum á bandalagssvæðinu.
 
21.gr.
Dómstólar ÍSÍ hafa lögsögu í málefnum ÍBV í samræmi við ákvæði laga ÍSÍ.