Sértækar aðgerðir - Upplýsingar um umsóknarferlið

28.05.2020

Til sambandsaðila ÍSÍ og formanna sambandsaðila ÍSÍ

Reykjavík, 26. maí 2020

Sæl öll!

Samkvæmt samningi mennta- og menningarráðherra við ÍSÍ er framlag ríkisins 450 milljónir króna til íþróttahreyfingarinnar í fyrsta lið í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að bæta það tjón sem einingar innan hennar urðu fyrir.

Verður þeim fjármunum ráðstafað með tveimur mismunandi aðferðum:

 

  • Í fyrsta lagi almennum aðgerðum sem felast í almennum fjárhagslegum stuðningi sem dreifist á íþróttafélög landsins eftir ákveðinni reiknireglu. Sú aðgerð hefur þegar verið framkvæmd og fengu íþróttafélögin greiðslur þann 18. maí 2020.
  • Í öðru lagi með sértækum aðgerðum sem snúa fyrst og fremst að því að bæta tjón vegna sérstakra viðburða, móta og keppnishalds sem ekki getur orðið af vegna COVID-19.

 

Umsóknir vegna sértækra aðgerða:

  • Þeir aðilar sem geta sótt um í sértækar aðgerðir eru sérsambönd, héraðs- og íþróttabandalög, íþróttafélög með aðild að ÍSÍ og UMFÍ og deildir innan íþróttafélaga. Umsækjendur eru þeir sem orðið hafa fyrir tekjutapi vegna viðburða eða móta sem ákveðið hefur verið að fella niður eða breyta verulega vegna samkomubanns af völdum COVID-19 og hægt er að sýna fram á að hafi veruleg áhrif á rekstur og starf viðkomandi íþróttaeiningar.
  • Umsókn þarf að vera staðfest af meirihluta stjórnar viðkomandi einingar, þó aldrei færri en tveir aðilar. Þá þarf umsókn frá deild einstaka íþróttafélags að vera með samþykki aðalstjórnar félagsins.
  • Umsókn þarf að fylgja stutt greinagerð þar sem gerð er grein fyrir nettó tekjutapi vegna viðburðar. Nettótekjutap þýðir að einnig þarf að gera grein fyrir áætluðum kostnaði vegna viðburðar sem ekki kemur til greiðslu.
  • Leggja þarf fram samþykkta fjárhagsáætlun fyrir 2020 þar sem gerð er grein fyrir áætluðum hagnaði af viðburði.
  • Leggja þarf fram endurskoðaða ársreikninga og uppgjör viðburðar síðustu tveggja ára, sem sýna tekjur af sambærilegum eða samskonar viðburðum og sótt er um stuðning vegna tekjutaps.
  • Þá þarf að fylgja með umsókn staðfesting endurskoðanda/skoðunarmanni reikninga að upplýsingar umsóknar séu í samræmi við ársreikninga.
  • Gera þarf grein fyrir í umsókn hvaða áhrif tekjutap viðburðar hefur haft á umsækjanda og hvernig brugðist hefur verið við til að lágmarka tjón.
  • Gera þarf grein fyrir öðrum stuðningi sem sótt er um vegna stöðunnar s.s. frá aðalstjórn félags, sérsambandi, sveitarfélagi og ríkisvaldi.

 

Umsóknarfrestur er til og með 15. júní 2020 og skulu umsóknir sendast á netfangið umsokn_c19@isi.is

Umsóknaraðili þarf að prenta út meðfylgjandi eyðublað, undirrita samkvæmt leiðbeiningum hér að ofan, skanna inn og senda með tölvupósti á tilgreint netfang.

Eyðublaðið og ofangreindar upplýsingar eru einnig aðgengilegar á heimasíðu ÍSÍ.

 

Vinsamlegast sendið ofangreindar upplýsingar áfram til íþrótta- og ungmennafélaga innan ykkar vébanda.  

Afar mikilvægt er að þessar upplýsingar nái til allra þeirra sem geta sótt um ofangreinda styrki og því væri vel þegið ef þið gætuð auglýst þetta á ykkar miðlum eða vísað þar á tengil ÍSÍ inn á umsóknarsvæðið.

Tengillinn er eftirfarandi:

 

https://isi.is/um-isi/umsokn-vegna-covid-19/

 

 

Með bestu kveðju,

ÍÞRÓTTA- OG ÓLYMPÍUSAMBAND ÍSLANDS

 

Líney Rut Halldórsdóttir

framkvæmdastjóri

liney@isi.is